Lífshlaupið hefst í dag!

03.02.2016

Setningarhátíð fer fram í Íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi í dag miðvikudaginn 3. febrúar kl. 09:00. Það er Grunnskóli Seltjarnarness sem fær þann heiður að hefja Lífshlaupið með formlegum hætti.

Gestir hátíðarinnar verða Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Ágerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.
Ólína E. Thoroddsen, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness og Lárus R. Blöndal ávarpa einnig gesti.

Andrés Guðmundsson frá Skólahreysti stjórnar þraut sem ræðumenn og nemendur taka þátt í í anda Skólahreysti og ræsir Lífshlaupið með formlegum hætti í níunda sinn.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu og gera hreyfingu að föstum lið í lífi sínu, hvort sem er í frítímanum, í vinnunni, í skólanum eða við val á ferðamáta.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:

* vinnustaðakeppni frá 3. – 23. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)

* framhaldsskólakeppni frá 3. – 16. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)

* grunnskólakeppni frá 3. – 16. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)

* einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Skrá má alla hreyfingu svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu. Börnum 15 ára og yngri er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og 16 ára og eldri a.m.k. 30 mínútur á dag.

Við hvetjum alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á sínum vinnustað/skóla.

Skráningarformið er auðvelt:

  • Þú byrjar á því að skrá þig persónulega til leiks hér (ATH! það þurfa allir að nýskrá sig þar sem að það var verið að færa heimasíðuna í nýtt kerfi)
  • Ef engin er búin að stofna þinn vinnustað tekur þú það að þér. Ferð á síðuna ,,Liðin mín" og smellir á ,,Stofna vinnustað" og síðan ,,Stofna lið"
  • Ef það er búið að stofna þinn vinnustað þá ferð þú á síðuna ,,Liðin mín"og smellir á ,,Ganga í lið"
  • Þá ert þú komin/n í lið og getur farið að skrá hreyfingu. Þú átt þinn persónulega aðgang og getur því skráð á þig hreyfingu allt árið um kring og tekið þátt í einstaklingskeppninni.