Setningarhátíð Lífshlaupsins 2016

03.02.2016

Setningarhátíð Lífshlaupsins fór fram í morgun í níunda sinn. Hátíðin fór fram í Íþróttamiðstöð Seltjarnarness og það voru nemendur Grunnskóla Seltjarnarness sem fengu þann heiður að ræsa Lífshlaupið.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra hélt stutt ávarp. Illugi hvatti nemendur og starfsfólk til þess að taka þátt í verkefninu og minnti þau á hversu mikilvægt það er að stunda daglega hreyfingu. 

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness og Ólína E. Thoroddsen, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness ávörpuðu einnig samkomuna. 

Fjórar stúlkur úr skólanum fluttu svo söngatriði. 

Platínumerki voru veitt þeim einstaklingum sem höfðu tekið þátt í einstaklingskeppni Lífhlaupsins allt árið 2015-2016. Til þess að vinna sér inn Platínumerki þarf að hreyfa sig í 335 daga á einu lífshlaupsári. Á síðasta Lífshlaupsári náðu 49 einstaklingar platínumerki. Af þeim voru 13 einstaklingar sem hreyfðu sig í a.m.k. 30 mínútur á dag, daglega síðan 3. febrúar 2015. Fjórir þessara platínuhafa voru með á hátíðinni en það voru þau: 

• Hlöðver Örn Vilhjálmsson
• Guðbjartur Guðbjartsson
• Kristrún Kristjánsdóttir
• Elín Birna Bjarnfinnsdóttir

Lífshlaupið var síðan sett með táknrænum hætti þar sem að Andrés Guðmundsson, frá Skólahreysti setti upp þrautarbraut og kepptu gestir og fjórir nemendur í henni.

Að lokum skelltu nemendur sér í skemmtilegan Zumba dans.  

ÍSÍ þakkar nemendum og starfsfólki Grunnskóla Seltjarnarness kærlega fyrir gestrisnina. 

Skráning í verkefnið er enn í fullum gangi hér á síðunni og því hvetjum við fólk til þess að skrá sig til leiks. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig daglega og gera hreyfingu að föstum lið í lífi sínu.