Sigurvegarar í myndaleiknum - hópmynd og selfie Lífshlaupsins 2018

05.03.2018

Dómnefnd hefur komist að niðurstöðu í vali sínu á bestu myndum Lífshlaupsins 2018 í myndaleiknum og nú liggja úrslitin ljós fyrir. Mikið var um flott myndræn tilþrif og komu á annað hundrað myndir til greina. Af þeim sökum var verðlaunum fjölgað og þeim skipt upp í flokkana hópmynd, selfie og besta mynd ársins. Hér eru úrslit í fyrstu tveimur flokkunum:

Hópmynd Lífshlaupsins 2018

Í þessum flokki voru tvær myndir hnífjafnar í stigagjöfinni og því ekki annað hægt að gera en að verðlauna báða aðila fyrir sitt framlag. Fyrri myndina tók Unnur Árnadóttir í Aðalliðinu á vinnustaðnum Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkissins en hópmyndin er litrík og skemmtileg af hlaupahópi ÍR að loknum góðum spretti. Unnur hefur gert frábært mót í Lífshlaupinu þetta árið og náð lágmarkshreyfingu á hverjum degi sem er flottur árangur.

Seinni hópmyndin er eftir Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur í Hólaliðinu í Hólabrekkuskóla og er tekin við fjallstindinn á Esjunni af hraustum fjallgönguhóp. Ragnheiður hefur verið gríðarlega öflugur Lífshlaupari og farið í fjallgöngur á Esjuna, hlaupið í Heiðmörk og m.a. náð að hlaupa samtals 85 kílómetra á einni viku! Hún hefur verið ötull myndasmiður og fjölmargar myndir sem hún hefur deilt með okkur í gegnum Instagramið sitt á @ragnheidurmotivation Báðir myndasmiðir hljóta veglega ostakörfu og drykki frá Mjólkursamsölunni sem tilvalið er að deila með hópnum sínum.

  

Selfie Lífshlaupsins 2018

Sjálfsmyndin eða selfie er orðin vinsæl í tíð snjallsíma og því þótti við hæfi að verðlauna sérstaklega þá bestu úr þeim fjölmörgu í þeim flokki sem teknar voru í Lífshlaupinu þetta árið. Að mati dómnefndar var það sjálfsmynd Jónu Lindar Kristjánsdóttur frá Ísafirði sem varð hlutskörpust en myndin er tekin í 28 kílómetra skíðagöngu við Heggeli í Osló. Jóna Lind hefur verið mjög dugleg við að deila flottum myndum með okkur á sínu Instagrami á @jonalindk og verið mjög virk á skíðum, hjólreiðum, göngu o.fl. Í verðlaun hlýtur Jóna Lind gjafabréf fyrir tvo í klifur með inniföldum leigðum klifurskóm frá Klifurhúsinu í Reykjavík ásamt kassa af Hleðslu frá Mjólkursamsölunni.

 

Á morgun tilkynnum við hver var hlutskarpastur í bestu mynd ársins í Lífshlaupinu 2018.