Lífshlaupið fer vel af stað

06.02.2023

Vonandi gengur ykkur vel í Lífshlaupinu 2023 og gaman að vita að það er skemmtileg keppni í gangi á mörgum vinnustöðum og skólum. Okkur langar að minna á að enn er hægt að skrá sig, hvort sem það er í vinnustaðakeppnina eða grunnskólakeppnina.

Við hvetjum alla til að vera með (og hvetja þá sem ekki eru skráði til leiks að gera það) það er hægt að skrá hreyfingu aftur í tímann frá upphafi keppninnar. Endilega minnið samstarfsfólkið á að skrá inn alla hreyfinguna sína.

Til upprifjunar:

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlugserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Við skulum hafa í huga að hreyfingin er aðalmálið og keppnin aðeins skemmtileg viðbót.

Skráningarleikurinn er í fullum gangi. Í Grunn- og framhaldsskólakeppninni fá heppnir þátttakendur glæsilega vinninga frá Mjólkursamsölunni. Í vinnustaðakeppninni fá heppnir þátttakendur ávaxtakörfu frá Ávaxtabílnum.
Vinningshafar eru dregnir út á hverjum virkum degi í þættinum Morgunverkin á Rás2 frá 1. febrúar til 21. febrúar.

Eins og ávallt hvetjum við alla skóla og nemendur til þess að taka þátt í skólahluta Lífshlaupsins, þetta verkefni skapar skemmtilega stemningu og eykur félagsandann í skólanum.

Vinningshafar í skráningar sem og myndaleik eru settir inn á heimasíðu Lífshlaupsins undir vinninghafar 

Ef þið hafið einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband á lifshlaupid@isi.is