Vinningshafi í myndaleik og skemmtileg myndaþema

16.02.2018

Í gær var dregið úr lukkupotti myndaleiksins og það var hún Guðrún María Jónsdóttir í liðinu Ísdrottningar sem starfa í Ísbúð Akureyrar sem var sú heppna að þessu sinni. Í verðlaun hlýtur hún gjafabréf fyrir tvo í klifur með inniföldum leigðum klifurskóm hjá Klifurhúsinu í Reykjavík. Guðrún María hefur átt mjög öfluga keppni það sem af er Lífshlaupinu og er komin með yfir 800 mínútur í fjölbreyttri hreyfingu eins og zumba, spinning, tabata, þreki o.fl. Hún deildi með okkur myndum í gegnum Instagramið sitt frá tabata-æfingu heima fyrir á meðan að pestagangur gekk yfir heimilið og einnig góðri göngu með eðalhundinum Ozzy.

 

Við óskum Guðrúnu Maríu til lukku með vinninginn og minnum Lífshlaupara á að halda áfram að deila með okkur myndum því að það verður aftur dregið í myndaleiknum eftir helgi og einnig verða verðlaun fyrir bestu myndirnar í lok keppninnar.

Það hafa einnig verið skemmtileg þemu í gangi eins og við sögðum frá í frétt okkar um vetrarmyndar, gæludýr og reiðfáka. Skóbúnaður hefur verið gönguhrólfum huglægur og margir flottar gönguskómyndir eins og þessar hjá Guðlaugi H. Sigurjónssyni ofan af toppi Þorbjarnar og Guðrúnu Önnu Eðvaldsdóttur á ónefndum göngustíg.

 

Trjágróður í vetrarskrúða hefur einnig verið vinsælt myndefni enda afar myndrænn í snæviþöktu umhverfi. Hér er flott mynd Jóhönnu Fríðu Dalkvist frá göngutúr við Elliðaárnar og önnur trjátengd göngumynd frá bökkum Þjórsár eftir Önnu Valda.

 

Í lokin er glæsileg hópmynd af liðinu Ungmennafélag Setbergsskóla en við hvetjum alla sérstaklega til að deila með okkur hópmyndum af sínum liðum því að slíkar myndir fá sérstök verðlaun í lok keppninnar. Taktu mynd & taktu þátt! #lifshlaupid